„Allir fóru í mínus“

mbl.is

Engum dylst að verulega hefur hægst um á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og það getur tekið tímann sinn að selja hús og íbúðir sem hefðu, bara fyrir nokkrum mánuðum, rokið út eins og heitar lummur. Meðal þeirra sem hafa fundið fyrir þessu eru hjón á sjötugsaldri sem í október í fyrra keyptu íbúð í nýju fjölbýlishúsi í Hafnarfirði og settu um leið húsið sitt í Garðabæ á sölu. Síðan hafa margir skoðað en engin tilboð borist. Á meðan stendur nýja íbúðin í Hafnarfirði auð og safnar vöxtum.

„Þetta byrjar á því að við skoðum þessa íbúð og fáum fasteignasala hingað heim og hann segir: „Já, ég sel þetta á hálfum mánuði.“ En þremur dögum seinna lokuðu bankarnir og allir fóru í mínus. Þannig að það hefur bara ekkert gengið,“ sagði konan sem baðst undan því að koma fram undir nafni.

Húsið sem um ræðir er í gömlu og grónu hverfi í Garðabæ. Samkvæmt verðmati sem lá fyrir þegar hjónin keyptu íbúðina hefði söluandvirði hússins átt að nægja til að greiða fyrir íbúðina og gott betur.

Hjónin gerðu ekki ráð fyrir öðru en að selja fljótlega. „Það var mikið skoðað og manni datt þetta aldrei í hug.“ Hún segir að margir séu hikandi við að kaupa fyrr en þeir séu búnir að selja sínar eignir. Ef eignin síðan selst ekki vilji enginn kaupa. „Það er mikið búið að skoða og fullt af fólki sýnir áhuga en það er allt með óseldar eignir þannig að þetta er bara vítahringur sem maður fer í,“ segir hún.

Þrír mánuðir liðu frá kaupum og þar til hjónin þurftu að byrja að greiða af íbúðinni. Skuldin nemur 30 milljónum og vextir nema 12% og segir konan að vaxtagreiðslur nemi 300.000 krónum á mánuði. Þau eru þó ekki rukkuð um þá upphæð mánaðarlega, heldur leggst hún ofan á höfuðstólinn. Þau hafa hugleitt að taka sjálf lífeyrissjóðslán út á húsið, sem er skuldlaust, en hættu við þar sem í ljós kom að lántökugjald, stimpilkostnaður og annað nam hærri fjárhæð en sem nemur muninum á vaxtakostnaðinum.

„Kreppan ekki komin til okkar“

Hjónin eru þó ekki farin að örvænta. „Við erum frekar róleg yfir þessu, það þarf eitthvað meira til að koma okkur úr jafnvægi en auðvitað fer maður að hafa áhyggur,“ segir hún. Þau hafi það gott, eigi húsið skuldlaust og sumarbústað fyrir austan fjall. „Kreppan er ekki komin til okkar,“ segir hún í léttum dúr. Margir aðrir hafi það helmingi verra. „Við erum ekkert á barmi örvæntingar en auðvitað er þetta erfitt,“ segir hún.

Systir konunnar er ein þeirra sem eru í svipaðri stöðu. Hún keypti íbúð í sama fjölbýlishúsi í Hafnarfirði og ætlaði að selja nýlega einstaklingsíbúð á góðum stað í Vesturbæ Reykjavíkur til að eiga fyrir kaupunum en íbúðin er enn óseld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert