Bankamönnum sagt upp

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja segja það áhyggjuefni hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir við bankastarfsmenn það sem af er árinu auk þess sem mörgum hafi verið sagt upp. Anna Karen Hauksdóttir, varaformaður stéttarfélagsins, segir að um sé að ræða bankastarfsmenn á öllum aldri og í öllum geirum.

„Auðvitað er það mikið áfall að missa vinnuna. Þetta hefur hins vegar alls staðar verið gert í samvinnu við stéttarfélagið,“ segir Anna.

Már Másson, upplýsingafulltrúi hjá Glitni, segir að menn hafi talið mikilvægt að sýna aðhald í rekstri. „Bankinn hefur sagt upp starfsmönnum í Noregi, Danmörku og á Íslandi auk þess sem ekki hefur verið gengið frá fastráðningum og ekki ráðið í störf sem losnuðu í einhverjum tilvikum. Hins vegar hefur ekki komið til hópuppsagna.“

Atli Atlason, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbankans, segir starfsmönnum ekki hafa verið fækkað að undanförnu. „Ég get hins vegar ekki sagt til um það sem gerist í framtíðinni. Við erum bara rétt mönnuð hverju sinni.“

Herdís Pála Pálsdóttir, mannauðsstjóri hjá Byr, segir að 14 konur hafi hætt störfum frá áramótum. „Það voru gerðir starfslokasamningar við flestar þeirra, ýmist að frumkvæði bankans eða þeirra sjálfra. Þetta voru konur á öllum aldri.“ Herdís segir frekari starfslok ekki fyrirsjáanleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert