Kínverskt fyrirtæki sem framleiðir og setur upp glervirkið mikla í Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu við Reykjavíkurhöfn hefur í hyggju að sækja um atvinnuleyfi fyrir um eitt hundrað kínverska starfsmenn sína á þeirri forsendu að þeir vinni allir sérhæfð störf.
Málið er til gaumgæfilegrar skoðunar hjá Vinnumálastofnun en aldrei hefur komið fyrir að fyrirtæki hafi eingöngu sótt um leyfi fyrir sérfræðinga en hvorki fyrir iðnaðarmenn né verkamenn. Vegna forgangs íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu hefur nánast lokast á útgáfu atvinnuleyfa til íbúa sem koma frá ríkjum utan þess og má fullyrða að umsókn um starfsleyfi fyrir ófaglært verkafólk frá ríkjum utan EES yrði hafnað.
Glervirkið er engin smásmíði en í því verða um 12.000 m² af gleri.
Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Íslenskra aðalverktaka, segir uppsetningu glervirkisins gríðarlega flókið verkefni. Þetta verði langstærsti glerveggur sem hér hafi verið reistur en til samanburðar sé glerveggurinn í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands um 1.300 m². Eftir töluverða skoðun hafi verið ákveðið að semja við kínverska fyrirtækið en það hafi mikla reynslu af verkefnum af þessu tagi. ÍAV kaupi bæði efni og uppsetningu á glervirkinu af þessu kínverska fyrirtæki.