Mikill fjöldi fólks hélt á skíði í Hlíðarfjall fyrir ofan Akureyri í morgun og urðu af því nokkrar umferðatafir. „Starfsfólk skíðasvæðisins stóð í ströngu við umferðastjórnun á svæðinu," sagði varðstjóri lögreglunnar á Akureyri.
Einn viðmælandi Fréttavefjar Morgunblaðsins sagði að ökuferðin á skíðasvæðið sem tæki venjulega um tíu mínútur hefði tekið ríflega 50 mínútur um hádegisbilið í dag og að sumir ökumenn hefðu snúið við á Hlíðarfjallsvegi og gefist upp á biðinni.
Lögreglan setti upp vaktstöð og athugaði ástand ökumanna og mældist einn þeirra með of mikið áfengi í blóðinu en sá mun ekki hafa gefið sér tíma til að sofa gleðskap næturinnar almennilega úr sér.
2500 manns í fjallinu
Sif Hjartardóttir starfsmaður skíðasvæðisins sagði að áætlaður fjöldi í fjallinu væri um 2500 manns og að á mesta álagstímanum hafi biðin í skíðalyfturnar verið um 30 til 40 mínútur.
„Ég hef ekki þurft að hringja á neina sjúkrabíla og allt hefur gengið mjög vel fyrir sig, ég frétti af einum sem mun hafa farið úr axlarlið en annars hefur allt gengið stórslysalaust fyrir sig enda mjög gott veður hér," sagði Sif.
Tónleikar og páskamessa í Bláfjöllum
Magnús Árnason framkvæmdastjóri skíðasvæðanna í Bláfjöllum sagði að um 5 til 6000 manns dreifðust jafnt yfir skíðasvæðin í grennd við höfuðborgina, veður væri gott og að aðsóknin væri sú næstmesta það sem af væri vetrar.
„Á morgun erum við svo með tónleika upp við Bláfjallaskálann sem byrja klukkan eitt og standa til að verða fjögur," sagði Magnús. Hann bætti því við að stærsti viðburðurinn yrði að öllum líkindum stórhljómsveitin Benni Hemm Hemm sem treður upp klukkan þrjú á morgun.
Á Páskadag mun síðan séra Pálmi Matthíasson prestur í Bústaðakirkju messa úti undir berum himni fyrir skíðafólk og hugsanlegt er að boðið verði upp á tónlist á skíðasvæðinu aftur á mánudaginn.