Gengisbreytingarnar að undanförnu hafa haft jákvæð áhrif á eignir lífeyrissjóðanna erlendis. Þetta segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðanna. Bendir hann á að um síðustu áramót hafi erlendar eignir lífeyrissjóðanna numið um 460 milljörðum íslenskra króna, sem er tæplega 30% af heildareignum lífeyrissjóðanna.
„Gengisbreytingarnar að undanförnu vega upp tap af lækkun markaða bæði innanlands og erlendis," segir Hrafn, en tekur fram að gengisbreytingarnar vegi fyrra tap þó ekki upp að fullu.
Aðspurður segir Hrafn menn ekki missa svefn út af stöðu mála á fjármálamörkuðum enda séu lífeyrissjóðirnir langtímafjárfestar, þannig að slök skammtímaávöxtun sé ekki eitthvað sem sjóðirnir hafi áhyggjur af í bráð og lengd.
„Tryggingafræðileg staða sjóðanna er mjög traust, sem skiptir auðvitað öllu og meira máli en skammtímasveiflur á mörkuðum," segir Hrafn og bendir á að þegar tekið er tillit til tryggingafræðilegrar stöðu sjóðanna sé horft til þess að sjóðirnir nái 3,5% raunávöxtun, en sl. ár hafi raunávöxtun verið langtum betri en það eða 8,6% á sl. fimm árum og yfir 6% frá árinu 1991.