Að minnsta kosti sex manna er enn leitað í tengslum við húsbrot og líkamsárás í Breiðholti í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu réðust um tíu menn vopnaðir bareflum og öxum inn í íbúð þar sem hópur manna var fyrir.
Réðust þeir að mönnunum sem fyrir voru í íbúðinni og voru sjö þeirra fluttir á slysadeild til aðhlynningar eftir árásina. Enginn mun vera í lífshættu en nokkrir mannanna eru með slæm sár og beinbrot.Í kjölfar árásarinnar flýðu árásarmennirnir af vettvangi í nokkrum bílum og fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fram á aðstoð lögreglu á Suðurnesjum við að beita þeim eftirför. Einn bíll var stöðvaður við Strandaheiði og voru fjórir menn sem í honum voru handteknir grunaðir um aðild að árásinni.
Annarra árásarmanna er enn leitað en ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir þeir eru. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er rannsókn málsins á frumstigi og liggja upplýsingar um aðdraganda árásarinnar ekki fyrir.