Veðurstofan spáir suðaustan 5-10 metrum á sekúndu og dálítilli slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands með morgninum, en annars verður hæg breytileg átt og þurrt. Hiti verður 0 til 6 stig að deginum sunnan- og vestantil, en annars vægt frost.
Undir kvöld snýst í norðaustanátt með éljum norðantil en þá léttir til syðra. Hvessir seint í kvöld, einkum við ströndina norðantil. Á morgun verður austan og norðaustan 5-13 m/s, hvassast við norðurströndina. Dálítil él en þurrt vestanlands.