Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í páskapredikun sinni í Dómkirkjunni í morgun að fréttin af upprisu hins krossfesta Krists sé enn uppspretta gleði og vonar. Hann sagði okkur öll þekkja það að vakna á erfiðum morgnum og að fá fréttir sem skeki tilveruna.
Þá sagði hann fréttir undanfarinna daga vera af því tagi enda hafi þær að mestu snúist um fjármál og gengi, hrun og svarta daga. Frétt páskamorgunsins sé hins vegar frétt vonar og bjartsýni. Skoðanir séu og hafi alltaf verið skiptar um það hver merking fréttarinnar af upprisu Krists sé en að hún hafi þó heillað fólk um aldir og veitt því gleði og von.
Karl sagði upprisuna marka afdrifaríkustu umskipti í sögu mannkynsins og að krossinn sé tákn sem menn geti staðsett sig með er þeir standi frammi fyrir þeim raunaspurningum sem mæti hverjum einstaklingi og hverju samfélagi á öllum tímum. Krossinn minni einnig á kröfu Krists um kærleika og fyrirgefningu og sé eilíf ögrun við alla þá sem séu fastir í fíkn og lífsflótta af öllu tagi.
Sagði Karl, að líf og boðskapur Krists ögri þeim hugsunarhætti sem áskilji sér skýlausan rétt og kröfu á hendur lífinu og náunganum, mönnum og máttarvöldum, að hafa það gott og njóta lífsins hvað sem það kostar. Slík lífsafstaða og lífsmáti hafi sýnt sig ógna lífi og framtíðarheill heimsins alls.
„Loks er krossinn áminning um boðskap hins krossfesta um að við höfum val, að hver og einn getur snúið af óheillabraut og tekið háttaskiptum, við erum ekki ofurseld örlögum og ytri aðstæðum. Við erum frjáls til að iðrast og fyrirgefa, við erum frjáls til að játast lífinu. Þrátt fyrir allt. Þetta segir krossinn, kross Jesú, sem reis upp af dauðum," sagði Karl Sigurbjörnsson.