Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins slökkti í nótt eld í þremur bílum, í vesturbæ Reykjavíkur og í Hafnarfirði. Grunur leikur á að kveikt hafi verið í bílunum. Þá var einnig slökktur eldur, sem logaði i drasli við Mýrargötu í Reykjavík. Að sögn slökkviliðs voru hús ekki í hættu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir ljóst að brennuvargar hafi verið á ferðinni. Málið er í rannsókn.