Fram kemur á vefsíðu Kjósarhrepps að eigandi hjólhýsis hafi gefið sig fram og upplýst að höfuðkúpa, sem hann hafði talið að væri af dýri, hafi verið á meðal húsmuna hjólhýsisins. Hjólhýsið eyðilagðist í vonskuveðri þar sem það stóð við Meðalfellsvatn um síðustu áramót. Lögreglan sagði í samtali við mbl.is að málið teljist vera upplýst.
Fram kemur að grunur heimamanna varðandi höfuðkúpuna hafi verið á rökum reistur, en umrætt hjólhýsi var flutt á svæðið frá Laugarvatni fyrir ekki svo löngu. Það splundraðist síðan í austan stórvirði um síðustu áramót, segir á vef hreppsins.
Lögreglan sagði í samtali við mbl.is að ekki leiki grunur á að nokkuð saknæmt hafi verið á ferðinni. Rannsókn málsins sé því að mestu lokið. Lögreglan segir að um sé að að ræða hluta úr alvöru höfuðkúpu en ekki liggur fyrir úr hverjum hún er eða hver uppruni hennar sé.
Þá segir hún að ekki liggi fyrir nákvæmum hætti aldur höfuðkúpunnar, en talið er að hún sé nokkurra áratuga gömul. Höfuðkúpan var ekki geymd í gröf heldur hafði hún verið geymd inni á heimili segir lögregla, en nánari upplýsingar um málið fást ekki að svo stöddu.
Fram kemur á vef Kjósahrepps að eigandanum sé ekki fullkunnugt um hver sé uppruni hauskúpunnar, enda segist hann aldrei hafa gert sér í hugarlund að um mannabein væri um að ræða. Hann segir, að sett hafi að honum hroll við tilhugsunina um að í húsakynnum hans hafi verið raunveruleg mannabein.
Þá segir á vef Kjósarhrepps að unnið sé að því að hafa upp á manni sem talið er að hafi komið með hauskúpuna í hjólhýsið.