Aflþynnuverksmiðjan sem tekur til starfa á Akureyri síðar á árinu er ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að mati Skipulagsstofnunar. Hún er því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Alls verða til um 90 störf í verksmiðjunni.
Verksmiðjan verður reist í Krossanesi, þar sem iðnaður hefur verið starfræktur í áraraðir en fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins var lokað fyrir nokkrum misserum.
Ferlið í nýju verksmiðjunni felst í rafgreiningu eða rafhúðun á völsuðum álþynnum með lífrænni sýru. Um er að ræða röð baða þar sem bæði rafhúðun með efnum og hreinsun á yfirborði álþynna fer fram. Þess á milli er yfirborð álþynnanna hreinsað með fosfórsýru. Þegar ferlinu lýkur hefur myndast örþunn filma á yfirborði þynnanna og þá er orðin til fullgerð aflþynna, sem svo er kölluð, sem er til þess að geyma orku í rafmagnsþéttum.
Skipulagsstofnun telur að þar sem aflþynnuverksmiðjan kemur til með að nota talsvert magn hættulegra efna sé afar brýnt að við leyfisveitingar verði hugað sérstaklega að flutningi, geymslu, meðhöndlun og förgun þeirra og telur brýnt að unnið verði áhættumat fyrir starfsemina með tilliti til þeirra efna sem notuð eru.
Verksmiðjan í Krossanesi mun þurfa mjög mikla orku – alls 640 gígavattsstundir á ári sem er fimm sinnum meira heldur en notað hefur verið á öllu Eyjafjarðarsvæðinu árlega að undanförnu. Á heimasíðu Landsvirkjunar kemur fram að raforkukerfi fyrirtækisins hafi verið undir miklu álagi í vetur og verði áfram nánast fullnýtt, og þar kemur verksmiðjan í Krossanesi við sögu.
„Undanfarin misseri hefur Landsvirkjun framleitt raforku til gangsetningar á stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga sem gerði Norðuráli kleift að flýta gangsetningu en virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja eiga að framleiða raforku í þágu stækkunarinnar til frambúðar. Sú raforkuframleiðsla Landsvirkjunar nýtist rafþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri framvegis...“
Í skýrslu Skipulagsstofnunar kemur fram, í kafla um áhrif á atvinnulífið, að áætlað sé að verksmiðjan skapi allt að 90 framtíðarstörf. Það hefur áður komið fram, en í skýrslunni segir að það séu um „60 störf fyrir verksmiðjufólk, 22 fyrir iðnmenntaða, 4 verkfræðistörf og 4 við skrifstofuhald og stjórnun“.