Búið er að slökkva eld sem kom upp um 11 leytið í húsnæði Waldorfskólans í Hraunbergi í Breiðholti í morgun. Að sögn Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu barst þeim tilkynning um mikinn reyk en slökkvistarf gekk fljótt og vel, og nú er unnið að því að reykræsta.
Eldurinn kom upp í samtengdum timburhúsum við skólann en húsin voru ekki í notkun. Ekkert fólk var á svæðinu að sögn slökkviliðs, þar sem frí er í skólanum í dag. Ekki er vitað um upptök eldsins að svo stöddu.