Samanlögð áætluð aðsókn að sýningum leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands á leikárinu 2006–2007 nam laust innan við 440.000. Þessi fjöldi samsvarar því að hver landsmaður sæki leikhús 1,4 sinnum á ári. Leikuppfærslur voru samtals 247 talsins og heildarfjöldi sýninga rétt um 2.800. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
30% af aðsókn í kvikimyndahús
Frá leikárinu 2000/2001 að telja og til loka síðasta leikárs fjölgaði gestum um tæplega 48.000, eða um 12 af hundraði. Heildarfjöldi leiksýningargesta á síðasta leikári nam nærri 30 prósentum af heildaraðsókn kvikmyndahúsanna árið 2006.
Á síðasta leikári voru starfrækt sjö atvinnuleikhús með aðstöðu í sex leikhúsum. Á vegum þeirra voru 13 leiksvið með um 3,000 sætum. Leikhúsin settu 95 uppfærslur á svið hér innanlands; þar af voru leikrit flest, eða 63 talsins. Samanlagður fjöldi sýninga var 1.224. Uppærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 37, en eftir erlenda 51. Uppfærslur með verkum eftir innlenda og erlenda höfunda voru sjö. Leikhúsgestir voru samtals 259.038, að meðtöldum samstarfsverkefnum og gestasýningum. Sýningargestum fækkaði lítillega frá fyrra leikári, eða um nærri 3.000.
Atvinnuleikhópar 38 talsins
Atvinnuleikhópum hefur fjölgað
talsvert undanfarin ár, eða úr 22 leikárið 2000/2001 í 38. Uppfærslum á
þeirra vegum hefur fjölgað að sama skapi, en á síðasta leikári færðu
atvinnuleikhópar upp á svið innanlands 79 verk samanborið við 30 á
leikárinu 2000/2001. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru
uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa. Sýningar atvinnuleikhópa
innanlands voru 1.357 að meðtöldum sýningum í samstarfi með leikhúsum
og sýningum í skólum. Heildaraðsókn að þessum sýningum var 212.470.
Sýningargestum atvinnuleikhópanna hefur fjölgað umtalsvert undangengin
ár.
Áhugaleikfélög 40 talsins
Á næstliðnu leikári voru starfandi 40 áhugaleikfélög víðs vegar um landið. Uppfærslur á vegum félaganna voru á síðasta leikári 89, eða litlu fleiri en á leikárinu á undan. Tvær af hverjum þremur uppfærslum voru eftir innlenda höfunda. Fjölmargir einstaklingar koma að uppfærslum áhugaleikfélaga á ári hverju. Samanlagður fjöldi flytjenda á síðasta leikári var um 1.450 manns. Félögin sýndu 498 sinnum fyrir um 30.000 gesti.