Eldur kom upp í gömlu yfirgefnu húsi við Hverfisgötu í nótt, en að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var búið að kveikja í drasli og timbri á fyrstu hæð hússins.
Ekki var um mikinn eld að ræða og vel gekk að slökkva eldinn en þegar slökkviliðsmenn fóru upp á efri hæðina til þess að ganga úr skugga um að enginn væri í húsinu fannst maður sofandi á efstu hæð hússins.
Að sögn slökkviliðsins hefði getað farið illa, en oft er brotist inn í yfirgefin hús á þessu svæði.
Útkallið barst um hálftvöleytið í nótt og var lið frá tveimur stöðvum sent að Hverfisgötu 32-34, en slökkviliðið hefur nokkrum sinnum áður sinnt útköllum að þessu húsi.
Klukkan hálffimm í nótt fékk slökkviliðið útkall að Smiðjuvegi þar sem kveikt hafði verið í tveim bílum, en bílarnir eru mikið skemmdir, að sögn slökkviliðs.