Áhrif vaxtahækkunarinnar: Heimilum blæðir

„Mér líst mjög illa á ástandið. Gjaldþrot blasa við fjölda heimila og ríkisstjórnin, sem á að gæta hagsmuna almennings, verður að grípa inn í ef heimilin í landinu eiga ekki hreinlega að flosna upp.“

Með þessum orðum lýsir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, því hvernig boðaðar verðhækkanir á matvöru upp á allt að 20% blasa við honum.

Um stýrivaxtahækkun Seðlabankans, úr 13,75% í 15%, sem tilkynnt var í gær, segir Jóhannes: „Enn er höggvið í sama knérunn. Á að láta heimilunum í landinu blæða út? Þetta eru mjög neikvæðar fréttir fyrir neytendur, þannig að ekki skánar ástand heimilanna.“

Hann segir að á móti styrkingu á gengi krónunnar og lækkun verðbólgu, sem stefnt er að með stýrivaxtahækkuninni, vegi að nú muni heimilin þurfa að greiða enn hærri vexti fyrir lán sín. „Ég sé því ekki að þetta sé lausnarorðið.“

Stýrivaxtahækkun velt út í verðlag

„Aukinn kostnaður á fyrirtæki, hvort sem það er vaxtakostnaður eða annar kostnaður, kemur til með að hafa áhrif á verðlag. Að sama skapi kemur stýrivaxtahækkunin til með að hafa slæm áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna. Sú vaxtabyrði sem fyrirtæki og heimilin bera er allt of mikil og stýrivextir einir og sér ráða ekki við verðbólguna,“ segir Finnur.

Hann segist gera ráð fyrir hækkun á innfluttri matvöru upp á allt að 20%. Undir það tekur Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kaupáss sem meðal annars rekur verslanir Nóatúns, Krónunnar og 11-11. Heimsmarkaðshækkun á hráefnisverði, ásamt lækkun á gengi krónunnar, skiptir þar mestu, segja þeir.

Talsmenn bænda sem 24 stundir ræddu við telja einnig óhjákvæmilegt að innlendar landbúnaðarafurðir hækki í verði. Aðföng hafi hækkað verulega, bæði vegna breytingar á heimsmarkaðsverði og eins vegna gengisþróunar, sem hækki enn aðföng. Þá hafi nýgerðir kjarasamningar áhrif til hækkunar. Sagði einn þeirra líklegt að hækkunin yrði ekki undir 20%.

Í hnotskurn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert