Áhyggjur af Íslandi aukast

Skyndileg og óvænt hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum sínum í gær hefur aukið áhyggjur manna af því að Ísland gæti orðið fyrsta landið til að fara illa út úr þeim erfiðleikum sem nú eru á fjármálamörkuðum heimsins. Þetta segir í frétt á fréttavef breska viðskiptablaðsins Financial Times (FT) í gærkvöldi þar sem fjallað er um ákvörðun Seðlabankans að hækka stýrivexti sína um 1,25 prósentustig.

Segir í frétt FT að hröð veiking krónunnar að undanförnu hafi orðið til þess að talsmenn Seðlabankans hafi talað óvenju ákveðið um það að hætta væri á víxlhækkunum verðlags, launa og verðs á erlendum gjaldeyri, ef ekkert verði að gert. Er haft eftir Ingimundi Friðrikssyni seðlabankastjóra að tíminn einn muni leiða í ljós hvort aðgerðir bankans muni skila tilætluðum árangri.

Í frétt FT segir að á sama tíma og traust alþjóðlegra fjárfesta á Íslandi hafi minnkað umtalsvert hafi íslenskir stjórnarmálamenn og hagfræðingar reynt að fullvissa markaðsaðila um styrkleika íslensks efnahagslífs. Þá er haft eftir Richard Portes, prófessor við London School of Economics, sem á síðasta ári skrifaði skýrslu um íslenskt efnahagslíf að hann hvetji menn til að kynna sér raunverulega stöðu mála á Íslandi. Verið sé að taka á ofhitnun hagkerfisins og dregið hafi úr hagvexti. Þá hafi viðskiptahallinn, sem margir telji að sé helsta rót vandans, minnkað mikið. Auk þess sé staða bankanna sterk samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert