Fólk hefur hafst við í gámi í Bergstaðarstræti í Reykjavík í nokkrar vikur og býr þar með leyfi verktaka. Hafði fréttastofa Útvarpsins þetta eftir íbúa í götunni. Gámurinn stendur við hlið Bergstaðarstrætis 16 og skagar inn á lóðina númer 18 sem er í eigu Reykjavíkurborgar.
Verið er að gera húsið Bergstaðarstræti 16 upp en það var flutt af Hverfisgötu. Sagðist íbúinn hafa séð þá, sem í gámnum dveljast, skvetta úr koppum sínum utan við gáminn enda sé þar engin salernisaðstaða. Lögregla var kölluð til fyrir tveimur vikum en segir að ekkert sé hægt að aðhafast fyrst fólkið hafi leyfi eigenda gámsins.