Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. var fyllilega heimilt að selja eignir ríkisins á fyrrum varnarliðssvæði á Keflavíkurflugvelli án aðkomu Ríkiskaupa og bar ekki skylda til að bjóða þær út. Þá var hagsmuna ríkisins gætt við ráðstöfun þeirra. Gæta hefði mátt betur að hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins við söluna en ekki verður séð að slíkir þættir hafi haft áhrif á hana eða valdi því að sölusamningar séu ógildir. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.
Í stjórnsýsluúttekt sinni á Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. bendir Ríkisendurskoðun á að félaginu sé í lögum falin umsýsla fasteigna á fyrrum varnarliðssvæði á Keflavíkurflugvelli og framtíðarþróun svæðisins fyrir hönd íslenska ríkisins. Það hafði því fullar heimildir til að selja þessar fasteignir án aðkomu Ríkiskaupa og þurfti ekki að bjóða þær út í samræmi við lög um opinber innkaup. Ríkisendurskoðun telur hins vegar að Þróunarfélaginu hafi borið að efna til útboðs um nauðsynlegar breytingar á rafmagni fasteigna vegna umfangs þess verkefnis og útfærslu á endurgjaldi fyrir það.
Ríkisendurskoðun telur að seldar fasteignir á varnarliðssvæðinu fyrrverandi hafi verið auglýstar með fullnægjandi hætti þótt hugsanlega hefði mátt gera enn betur í þeim efnum. Þá hafi hagsmuna ríkisins verið gætt við ráðstöfun þeirra. Hæstu tilboðum hafi nær undantekningarlaust verið tekið nema þegar sala annarra fasteigna hefði þar með ekki gengið eftir og heildarverð seldra eigna því lækkað.
Óheppilegt að sömu aðilar tengist Þróunarfélaginu og kaupendum
Ríkisendurskoðun brýnir fyrir stjórnendum Þróunarfélagsins að gæta vel að hæfisskilyrðum við meðferð mála, þar á meðal við undirbúning og ákvörðun um sölu eigna. Stofnunin telur óheppilegt að sömu aðilar tengist bæði Þróunarfélaginu og félögum sem keypt hafa eignir af því. Slíkt geti alið á tortryggni og dregið úr trúverðugleika og réttaröryggi. Þá sé eðlilegt að stjórn félagsins takmarki óvenju víðtækt umboð framkvæmdastjóra félagsins til að skuldbinda það og tryggi þar með að stjórnin komi að öllum meiriháttar ákvörðunum. Ekki verður þó ætlað að hæfi einstakra aðila hafi haft áhrif á sölu eigna á svæðinu eða valdi því að einstakir sölusamningar séu ógildir.
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar í heild