„Á niunda áratugnum fór fram hér á landi landssöfnun fyrir tæki, svokölluðum heilasírita, til að greina flogaveika einstaklinga sem mögulega gætu farið í skurðaðgerð til útlanda. Það er reyndar komið enn betra tæki síðan. Nú eru tækin til en þá vantar mannskap. Þetta er mjög dapurlegt.“
Þetta segir Þorlákur Hermannsson, formaður LAUF, Landssamtaka áhugafólks um flogaveiki, en í Morgunblaðinu í gær kom fram að undanfarin tvö ár hefði ekki verið hægt svo vel væri að taka flogaveika í rannsókn á taugadeild Landspítalans, vegna manneklu. Rannsóknin er nauðsynleg til að greina upptök floga í heila sjúklinganna. Út frá þeim upplýsingum er metið hvort heilaskurðaðgerð henti viðkomandi, en aðgerðin getur læknað fólk af flogaveiki. „Ég þekki marga sem hafa farið í aðgerðina og fengið góðan bata. Þessi aðgerð er gjörbylting fyrir þetta fólk.“
Þorlákur segir að flogaveikir, líkt og aðrir sjúklingar, finni fyrir manneklunni á Landspítalanum.
„Það er dapurlegt til þess að hugsa að rúm skuli standa tóm vegna þess að það vantar starfsfólk. Það er alls ekki nógu vel hlúð að flogaveikum eða öðrum sjúklingum sem glíma við taugasjúkdóma. Í raun er þetta til skammar fyrir íslenska ríkið.“
Hann segir gott að peningar séu lagðir í þróunarverkefni erlendis. „En við þurfum að líta okkur nær í þessum efnum, ekki sópa vandamálunum undir teppið.“
Þorlákur tekur fram að starfsfólk taugadeildarinnar sé framúrskarandi, hins vegar starfi það oft við erfiðar aðstæður.