Þrjár líkamsárásir kærðar í Vestmannaeyjum

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Brynjar Gauti

Þrjár líkamsárásir voru kærðar til lögreglu í Vestmannaeyjum yfir páskahátíðina og var í öllum tilvikum um minniháttar áverka að ræða.  Tvær þeirra áttu sér stað á skemmtistöðum bæjarins, önnur á veitingastaðnum Lundanum þar sem maður var skallaður í andlitið en hin á veitingastaðnum Drífanda þar sem ósætti varð á milli tveggja manna sem endaði með handalögmálum.  Þriðja árásin átti sér stað í heimahúsi sem endaði með því að sá sem fyrir árásinni varð þurfti að leita til læknis vegna áverka sem hann fékk.

Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum um páskahátíðina, samkvæmt dagbók lögreglu.  Hátt í 20 ungmönnum vísað út af skemmtistöðum bæjarins þar sem þau höfðu ekki aldur til að vera þar inni.  Fjöldi bifreiða voru stöðvaðar til að kanna með ástand ökumanna en um þessar mundir stendur yfir landsátak lögreglu með ölvunar- og fíkniefnaakstri.

Þrjú eignaspjöll voru kærð en um er að ræða rúðubrot í Ráðhúsi bæjarins þann 17. mar sl. en þar voru að verki nokkur börn.  Aðfaranótt 19. mars sl. var rúða brotin í húsnæði Íslandspósts v/ Vestmannabraut. Ekki er vitað hver þarna var að verki en lögreglan hvetur þá sem einhverjar upplýsingar hafa um að hafa samband.  Aðfaranótt 24. mars sl. var lögreglu tilkynnt um að hurð hafi verið spörkuð upp að Miðstræti 16 þannig að karmur hennar losnaði. Ekki hafði verið farið inn í húsið. Lögreglan hefur ekki upplýsingar um hver þarna var að verki og óskar eftir upplýsingum um hver þarna gæti hafa átt hlut að máli.

Einn þjófnaður var kærður til lögreglu í vikunni sem leið og átti hann sér stað við Höllina aðfaranótt 22. mars sl. en farið hafði verið inn í bifreið sem stóð við Höllina og stolið úr henni m.a. framhlið af geislaspilara og sólgleraugum.  Eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hver, eða hverjir þarna voru að verki vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Af umferðarmálum er það að frétta að alls voru 9 ökumenn kærðir vegna brota á umferðarlögum.  Einn af þessum ökumönnum er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis en sá hinn sami hafði lent í umferðaróhappi skömmu áður.  Þrír ökumenn fengu sekt fyrir ólöglega lagningu, þrír fyrir að vera ekki með ökuskírteini meðferðis og einn fyrir brot biðskyldubrot.  Þá var einn ökumaður sektaður fyrir að vera með of marga farþega í bifreið sinni.

Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni.  Í tveimur tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða en í einu tilviki var um töluvert harðan árekstur að ræða þar sem bifreið var ekið á kyrrstæða bifreið í Búhamri.  Þrír ungir menn voru í bifreiðinni og þurftu þeir allir að leita læknisaðstoðar á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.  Meiðsl þeirra reyndust hins vegar ekki vera alverleg.  Önnur bifreiðin er töluvert skemmd og var óökufær eftir óhappið, samkvæmt dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert