Útlit fyrir að olíuverðið haldist hátt á næstunni

„Það væri mjög gott ef krónan myndi styrkjast. Hún er náttúrulega bara dropi í hafið á móti þessum stóru gjaldmiðlum,“ segir Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, um áhrif gengisins á olíuverðið. N1 lækkaði lítraverð á bensíni um eina krónu í gær og segir Magnús mjög erfitt að segja fyrir um þróun verðsins.

„Það er mjög erfitt að segja til um það eins og staðan er. Það er búið að vera flökt á gengi krónunnar gagnvart olíuverðinu, á sama tíma og það hefur verið flökt á heimsmarkaðsverði á olíu. Það hefur verið hreyfing á þessum liðum upp og niður. Dollarinn er svo veikur gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það þarf að „lækna dollarann“, ef svo má að orði komast. Ef dollarinn myndi styrkjast gagnvart stærstu gjaldmiðlum heims myndum við horfa fram á miklu stöðugra ástand.“

Magnús segir heimsmarkaðsverðið á olíu ekki gefa tilefni til frekari lækkunar að sinni.

„Við bíðum og sjáum hvað olíufyrirtækin eru að gera í augnablikinu. Hráolíuverðið er grunnþátturinn og afleiðan unnar olíuafurðir. Langtímaspár gera ráð fyrir að verðið á tunnunni á hráolíu verði um 100 dalir næstu mánuði.

Nýjustu spár gera ráð fyrir að heimsmarkaðsverð gæti í þetta sinn hækkað fyrr út af sumrinu en síðustu ár. Þótt hráolían lækki um nokkra dollara, þurfa olíutegundir að lækka líka. Framvirk hækkun á bensíni fyrir júní og júlí nemur 16-17 dölum. Það verður þó að hafa í huga að þetta eru aðeins spár.

Það þarf að líða nokkuð frá atburðum síðustu daga áður en ég treysti mér til að spá fram í tímann. Dagurinn í dag [í gær] sýnir að það er mikil iða á markaðnum.“

Lækkuðu líka um krónu

„Gengið er veikt núna og olíuverðið hátt og það eina sem ég get sagt er að við munum tryggja viðskiptavinum okkar samkeppnishæft verð á hverjum tíma.“

Skeljungur lækkaði lítraverð á bensíni og dísil um eina krónu í gær. „Hver þróunin verður fer eftir gengi krónunnar og þróun á heimsmarkaðsverði,“ segir Stefán Karl framkvæmdastjóri neytendasviðs hjá Skeljungi. Öll hreyfing á genginu hefur mikil áhrif.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert