Út er komið hefti Hagtíðinda um áfengisneyslu á árinu 2007 í efnisflokknum Vísitölur, laun, tekjur, neysla.
Áfengissala hér á landi var um 24,8 milljónir lítra árið 2007 á móti 23,2 millj. lítra árið 2006 og jókst salan því um 7%. Talið í alkóhóllítrum er aukningin 7,6%, úr 1722 þúsund alkóhóllítrum árið 2006 í 1852 þúsund alkóhóllítra árið 2007.
Reiknað á hvern íbúa 15 ára og eldri, nam heildarsalan 7,53 alkóhóllítrum, en var 7,2 alkóhóllítrar á árinu 2006, að sögn Hagstofunnar, sem birtir þessar tölur.
Sala á sterkum drykkjum hefur aukist á ný á allra síðustu árum, en sala þeirra hafði minnkað milli ára flest árin frá árinu 1989, þegar sala á bjór var leyfð. Neysla gosblandaðra drykkja, sem eru að grunni til sterkir drykkir, hefur aukist mikið frá árinu 2000.
Hægt hefur á hinni miklu aukningu sem var í sölu á léttum vínum í mörg ár, en sala á hvítvíni jókst þó mikið milli áranna 2006 og 2007 og hefur aukist sérstaklega mikið síðustu sex árin. Hlutfall bjórs í heildarsölu áfengis í alkóhóllítrum talið hefur verið nokkuð stöðugt, eða um 52%, hin síðari ár.