Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að kanna hvort hagvkæmt sé að koma á lestarsamgöngum milli miðborgar Reykjavíkur og Keflavíkur annars vegar. Einnig verður kannað hvort léttlestarsamgöngur innan Reykjavíkur séu hagkvæmar.
Í tillögunni, sem samþykkt var á fundi borgarráðs í dag, segir að í ljósi breytinga á eldsneytisverði í heiminum, þéttingar byggðar, umhverfisþátta og áherslu á nýtingu innlendra orkugjafa í samgöngum feli borgarráð umhverfis- og samgöngusviði að kanna hagkvæmni þess og fýsileika að koma á lestarsamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og Miðborgar Reykjavíkur annars vegar og léttlestarkerfis í Reykjavík hins vegar.
Við úttektina verði endurskoðaðar og uppfærðar fyrri úttektir sem unnar hafa verið um lestarsamgöngur á vegum borgarinnar og fjárhags-, umhverfis- og skipulagsþættir greindir. Ennfemur verði lagðar fram upplýsingar um kostnað vegna rekstrar lesta milli Reykjavíkur/Keflavíkur og rekstrar léttlesta á höfuðborgarsvæðinu.