Magnús Kristinsson, kaupsýslumaður í Vestmannaeyjum, skrifar grein í Eyjablaðið Fréttir í dag þar sem hann varar við því að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru. Segir hann þá framkvæmd vera vanhugsaða og skili Eyjamönnum ekki því öryggi og þeim samgöngubótum sem þeir þurfi á að halda.
„Fróðir menn segja mér að erfitt verði að koma upp öruggri höfn í Bakkafjöru og þó það takist styttir það ekki ferðatíma með ásættanlegum hætti. Í Bakkafjöru eigum við enn ófarna um 120 km til Reykjavíkur. Ferðatíminn milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja verður þá aldrei undir tveimur til tveimur og hálfri klukkustund. Kostnaður er ekki lítill, að þurfa að keyra langt austur á Rangárvelli til þess eins að komast í skip.
Ég skora á Eyjamenn að flykkja sér um þá hugmynd sem lengi hefur verið á floti, að byggja upp nýju hafskipahöfnina utanvert við Eiðið; viðlegukant sem geti tekið við stærstu skipum. Þessi höfn myndi stytta ferðatímann úr Eyjum í land um 15 mínútur," segir Magnús m.a.
Segist hann ekki í vafa um að endurbætur á höfn í Vestmannaeyjum myndu nýtast langt um betur en höfn í Bakkafjöru. „Þarna gæti orðið nýr viðkomustaður skemmtiferðaskipa og þannig örvað ferðaþjónustu hér. Við yrðum ekki lengur háð því, að einungis minni fraktskip geti komið til Vestmannaeyja. Öflugur og hraðskreiður Herjólfur er eðlileg krafa Eyjamanna og í nauðsynlegum hafnarbótum í Eyjum felst framtíðarlausn, öndvert við hugmyndina um höfn í Bakkafjöru. Þar er stefnt í strand."