Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú tveggja manna sem eru grunaðir um innbrot í verslun Hermanns Jónssonar, úrsmiðar við Ingólfstorg. Öryggisfyrirtæki í Reykjavík barst tilkynning um fjögur leytið í nótt, en að sögn lögreglu voru mennirnir farnir þegar öryggisvörður kom á vettvang.
Hurð í versluninni var spennt upp og sást til tveggja manna á eftirlitsmyndavél í versluninni. Mennirnir tóku með sér 20-30 armbandsúr af gerðunum Raymond Weil og Revue Homme, en virði þeirra nemur milljónum.
Lögregla náði góðum myndum af mönnunum. Annar þeirra er um 185 sentímetrar á hæð og var með hvíta húfu, í svartri úlpu og gallabuxum og svörtum strigaskóm. Hinn var með svarta lambhúshettu, í svörtum jakka með hvítu merki á erminni og í dökkum gallabuxum og svörtum og hvítum skóm.