Ungur maður sem hrifsaði til sín fartölvu í verslun BT í Kringlunni í Reykjavík um klukkan 3 í dag var handsamaður af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í Gerðahverfinu fyrir skömmu. Hann mun hafa ógnað starfsfólki verslunarinnar með eggvopni áður en hann lagði á flótta.
Að sögn lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu mun ræninginn vera mjög ungur að árum en að svo stöddu er ekki vitað hvort hann hafi komið áður við sögu á þeim bæ.
Heimildarmaður Fréttavefjar Morgunblaðsins segir drenginn hafa ógnað starfsfólki verslunarinnar með skærum er hann lagði á flótta úr versluninni. Hann hafði áður klippt á öryggissnúru við fartölvuna með skærunum og hrifsað tölvuna.