Ríflega 130 keppendur eru skráðir til þátttöku á Skíðamóti Íslands sem verður sett á Ísafirði í dag. Margir af sterkustu skíðamönnum landsins eru þar á meðal auk fimm erlendra þátttakenda.
Mótið hefst með keppni í sprettgöngu strax að setningu lokinni og verður keppt í krefjandi braut sem lögð er sérstaklega af þessu tilefni við Safnahúsið á Ísafirði þar sem setningin fer fram. Má búast við hörkuspennandi og skemmtilegri keppni þar sem mestu skíðagöngukappar landsins mætast.
Aðrar keppnisgreinar fara fram föstudag til sunnudag á skíðasvæðinu, alpagreinarnar í Tungudal og norrænu greinarnar á Seljalandsdal. Aðstæður þar eru eins og best verður á kosið og leggst mótið vel í bæði mótshaldara og keppendur.