Töluverður hluti af þeim geisladiskum, tölvuleikjum og mynddiskum sem Sena gefur út og dreifir er nú ófáanlegur í verslunum Skífunnar, og mun ástæðan vera sú að forsvarsmenn Skífunnar sætta sig ekki við verðhækkanir sem gerðar voru á vörum Senu fyrir nokkrum vikum. Þannig eru sumar vörur frá Senu uppseldar í verslunum Skífunnar, og aðrar að klárast. Sem dæmi má nefna nýútkomnar safnöskjur Sálarinnar hans Jóns míns, Vatnaskil, sem ekki hafa fengist í Skífunni.
Sena er stærsti dreifingaraðili og útgefandi íslenskrar tónlistar, gefur út um 25% þeirrar tónlistar sem kemur út hér á landi og er með um 65% markaðshlutdeild. Þá er fyrirtækið það stærsta í dreifingu á erlendri tónlist og tölvuleikjum á Íslandi, og eitt það stærsta í dreifingu á mynddiskum.
Skífan er stærsta plötuverslun á Íslandi og sem dæmi má nefna að um helmingur allra seldra platna hjá Senu fer til Skífunnar. Skífan og Sena voru eitt sinn í eigu sömu aðila, en Sena er nú í eigu 365 hf. og Skífan í eigu Árdegis ehf.
„Þetta er voðalega einfalt. Við rekum smásölufyrirtæki og kaupum vörur til endursölu. Ef okkur líkar ekki verðið sem okkur er boðið kaupum við ekki, það er svo einfalt. En svo tuskast menn eitthvað á eins og gengur, það er að segja verslunin og birgirinn,“ segir Sverrir Berg Steinarsson, eigandi og stjórnarformaður Árdegis sem á og rekur Skífuna.
„Sena er okkar stærsti birgir og við eigum fín viðskipti við þá. En það eru einstakir titlar sem menn koma sér ekki saman um innkaupsverðið á, og þá er það eins og í hverri annarri verslun að þá er það ekki til. Við viljum geta boðið vöruna á góðu verði, en samt sem áður þurfum við að geta rekið okkar fyrirtæki þannig að sómi sé að. Þannig að þetta beinist ekki gegn Senu sérstaklega, við erum með tugi þúsunda titla í boði í Skífunni.“