„Þurfum að finna sameiginlega lausn"

„Viðbrögðin hafa einkennst af óðagoti,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, um verðhækkanir undanfarna daga vegna versnandi gengis krónunnar. „Einnig bendir margt til þess að sumir nýti sér stöðuna til að auka framlegð og verja miklar verðhækkanir með skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði. Þá virðist það skila sér mun fljótar út í verðlagið þegar tilefni er til hækkana, en þegar tilefni er til lækkana,“ bætir Gylfi við, en Alþýðusambandið sendi frá sér ályktun í gær um þróun síðustu daga.

Gylfi segir fyrirtæki þurfa að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum til að ná markmiðum gerðra kjarasamninga: „Menn þurfa að halda aftur af sér og ganga ekki lengra í verðhækkunum en nauðsyn krefur. Þannig getum við vonandi komist í gegnum þetta ástand, og verðbólga gengið niður seinni hluta árs og í byrjun þess næsta.“

Gylfi segir ljóst að nýleg vaxtahækkun hafi verið afleiðing af óvarlegri umræðu um vilja fyrirtækja til verðhækkana: „Í stað þess að hafa verðbólgumarkmið Seðlabankans sem viðmið, fer markaðurinn að taka mið af umræðu um 20% verðhækkanir. Þær verðbólguvæntingar sem þá verða skapa aðstæður þar sem Seðlabankinn telur óhjákvæmilegt að grípa inn í,“ segir Gylfi. „Menn tala sig inn í að það sé í lagi að hækka verð á vöru og þjónustu, sem síðan skapar afsökun fyrir suma að ganga langt. Verðbólgunni er þannig hleypt í gegn.“

Gylfi segir stjórn ASÍ mjög ósátta við aðgerðaleysi stjórnvalda, og þurfi án tafar að gera viðbragðsáætlun þar sem aðilar vinna saman að því að greina vandann og finna sameiginlega lausn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert