Tollverðir mótmæla

Frá fundi tollvarða á Suðurnesjum.
Frá fundi tollvarða á Suðurnesjum. mbl.is/Þorgils Jónsson

Tollverðir á Suðurnesjum funduðu nú í kvöld og mótmæltu einhliða ákvörðun dómsmálaráðuneytisins sem mun leiða til þess að sameinað löggæsluembætti Suðurnesja verður leyst upp.

Í ályktun fundarins segir að tollverðir sjá engar efnislegar eða fjárhagslegar ástæður fyrir þessari ákvörðun og óska eindregið eftir að hún verði tekin til endurskoðunar.

Tollverðir segjast óttast þau áhrif, sem ákvörðunin getur haft á hinn góða starfsanda og frábæra árangur, sem undanfarin ár hefur einkennt embætti Jóhanns R. Benediktssonar lögreglu- og tollstjóra.

Í ályktun fundarins segjast tollverðir jafnframt óttast að hin áratuga langa og góða samvinna löggæsluaðila á Suðurnesjum muni minnka.

Í ályktuninni segir orðrétt: „Tollverðir óttast að fíkniefnaeftirlit, tolleftirlit, eftirlit með innflutningi á vopnum og öðrum ólöglegum varningi og innheimta aðflutningsgjalda verði óskilvirkari og versni í kjölfar þessara breytinga."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert