Búið er að sleppa tveimur mönnum úr gæsluvarðhaldi sem grunaðir voru um að hafa beitt sprautunálum við þrjú rán og eina ránstilraun í Breiðholti. Einum er enn haldið í varðhaldi og ljóst verður á morgun hvort áframhaldandi gæsluvarðhalds verði krafist. Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir manninum en sá úrskurður rennur út á morgun.
Að sögn Ómars Smára Ármanssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, telst málið upplýst. Ekki leikur neinn grunur á að fleiri séu viðriðnir málið og sá sem enn situr inni er sá eini sem lét til skarar skríða hverju sinni, samkvæmt upplýsingum lögreglu.