Hjálparstofnun kirkjunnar hefur hafið söfnun fyrir íbúa Darfúr en neyðarástand ríkir í Darfúr-héraði í vestur-Súdan. Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, er nýkominn frá Darfúr-héraði.
„Vegna versnandi ástands í Darfúr er enn mikil þörf fyrir neyðaraðstoð, en um 6 milljónir manna búa í Darfúr. Um 250.000 manns hafa látist síðan 2003 þegar ófriðurinn sem nú geisar byrjaði. 2,5 milljónir manna haf neyðst til að flýja heimili sín og setjast að í flóttamannabúðum. Æ fleiri hópar uppreisnarmanna og ribbalda ráða ríkjum og hrekja fólk frá heimkynnum sínum,” segir Jónas.
Að sögn Jónasar er Hjálparstarfið aðili að Alþjóða neyðarhjálp kirkna, ACT, sem í samstarfi við fleiri samtök stendur að einu stærsta neyðarverkefni sem framkvæmt er í Darfúr. 350.000 einstaklingar fá daglega hjálp í gegnum neyðarverkefnið. Reynt er að gera lífið í flóttamannabúðunum bærilegra, fjölskyldur fá húsaskjól og neyðarpakka með ýmsu af því allra nauðsynlegasta, skólastarf er í gangi fyrir börnin og reynt að tryggja aðgang að hreinu vatni. Heilsuþjónustu er komið á fót og reynt að veita áfallahjálp og sálrænan stuðning vegna hinna erfiðu lífsreynslu sem nánast allir hafa þurft að ganga í gegnum.
„Þess vegna stöndum við fyrir söfnun fyrir fólkinu í Darfúr. Upphæðin á heimsendum gíróseðli er 2.400 krónur sem dugar t.d. fyrir neyðarpakka fyrir 5 manna fjölskyldu eða plóg og mataráhöld fyrir eina fjölskyldu,” segir Jónas. „Þegar fólkið kemur í flóttamannabúðir á það ekkert, neyðarhjálpin er þeim lífsnauðsynleg. Vandinn í Darfúr er mikill og flókinn og erfitt að finna lausnir,” segir Jónas.
Gíróseðlum verður dreift á öll heimili næstu daga og söfnunarsími er 907 2002.