Tugir vörubíla á Kringlumýrabraut, Miklubraut og í Ártúnsbrekku

Frá gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í hádeginu.
Frá gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í hádeginu. mbl.is/Júlíus

Tugir vörubíla og flutningabíla hafa myndað bílaraðir við Kringlumýrabraut og Miklubraut, og í Ártúnsbrekku.  Um er að ræða aðgerðir atvinnubílstjóra sem vilja mótmæla háu eldsneytisverði og skorti á hvíldaraðstöðu á landsbyggðinni. Um 100 bílstjórar taka þátt í aðgerðunum nú í dag.

Lögreglan hefur lokað öllum nærliggjandi götum til þess að beina umferð frá þeim svæðum sem bílstjórarnir eru að mótmæla. Hafa bílstjórarnir greint lögreglu frá því að aðgerðum í dag verði hætt klukkan 12:55. 

Tugum flutningabíla með tengivagna var lagt á Ártúnsbrekku í gær skammt frá verslun N1 og lokuðu þeir umferðinni í báðar áttir.  

Auknar álögur en engin hvíldaraðstaða

Ágúst Fylkisson, flutningabílstjóri og einn talsmanna bílstjóranna, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að þeir hafi lokað gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og eins umferð um Ártúnsbrekkuna. 

Ágúst segir að með þessu vilji atvinnubílstjórar mótmæla því að ríkið auki sífellt álögur á þá en standi ekki við það sem því er gert að gera. Til að mynda sé ætlast til þess að bílstjórar hvíli eftir 4,5 klukkustunda akstur en engin hvíldarplön séu til staðar á landsbyggðinni.

„Þegar við erum að keyra á nóttinni, líkt og við gerum iðulega, þá komumst við hvergi inn til að hvíla okkur eða fara í sturtu. Ríkið á að vera búið að koma upp hvíldaraðstöðu fyrir löngu en engin slík er fyrir hendi á landsbyggðinni. Það eina sem ríkið gerir er að hækka álögur á okkur," sagði Ágúst í samtali við mbl.is

Aðgerðirnar nú einungis sýnishorn af því sem á eftir að koma

Hann segir að um 100 bílstjórar taki þátt í aðgerðunum nú og það séu ekki einungis flutningabílstjórar eða vörubifreiðastjórar því leigubílstjórar og sendibílstjórar hafi bæst í hópinn. Eins sé búið að leggja einkabílum á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar til stuðnings aðgerðum bílstjóranna. „Það eru allir að taka þátt og við stöndum saman," segir Ágúst.

Hann segir að aðgerðum bílstjóra sé hvergi nærri lokið og þeim verði haldið áfram næstu daga. „Við eigum eftir að verða öflugri og öflugri og þrengja mikið að þjóðfélaginu. Aðgerðirnar nú eru bara sýnishorn af því sem eftir á að koma," segir Ágúst að lokum.

mbl.is/Júlíus
Frá aðgerðum flutningabílstjóra nú í hádeginu.
Frá aðgerðum flutningabílstjóra nú í hádeginu. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert