Bónus með lægsta verð og Nóatún hæsta

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í flestum tilvikum var einungis 1 krónu verðmunur á verslun Bónuss og Krónunnar á þeim vörum sem fáanlegar voru í báðum verslunum. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun Nóatúns.

Af þeim 29 vörutegundum sem skoðaðar voru var Nóatún með hæsta verðið í 13 tilvikum en Hagkaup reyndist með hæsta verðið á 11 vörutegundum og Samkaup-Úrval á 10 vörum.

Hjá Bónus var verðið lægst á 26 vörum af þeim 29 sem skoðaðar voru. Á 13 af þeim 18 vörutegundum sem fáanlegar voru bæði í Krónunni og Bónus var einungis einnar krónu verðmunur milli verslananna. Sífellt erfiðara reynist að bera saman verð á vörum milli lágvöruverðsverslana þar sem mikið er um að pakkningstærðir á vörum séu ekki hinar sömu hjá verslunum.

Mestur verðmunur í könnuninni var 153% á kílóverði af jöklasalati sem var dýrast í Hagkaupum þar sem það kostaði  479 krónur en ódýrast í Bónus 189 krónur. Minnstur verðmunur var á kílóverði af Alí spægipylsu sem kostaði  2781 krónur í Nóatúni, Samkaupum og Fjarðarkaupum en 2503 krónur í verslun Bónuss.

ASÍ segir, að verðmunur á þeim vörum sem séu forverðmerktar hjá framleiðanda yfirleitt mun minni en á öðrum vörum. Slík forverðmerking sé bönnuð og ætluð til þess að hafa hamlandi áhrif á eðlilega verðsamkeppni. Brýnt sé að samkeppnisyfirvöld framfylgi þessu banni nú þegar og tryggi að verðsamkeppni á þessum vörum verði með eðlilegum hætti.

Þá hvetur ASÍ neytendur til þess að fylgjast náið með verðlagi á matvöru á komandi vikum og mánuðum og beita samtakamætti sýnum til þess að sporna við þeim miklu verðhækkunum sem boðaðar hafa verið. Verðlagseftirlitð mun á næstu dögum fjalla nánar um verðþróun á matvöru.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Bónus Holtagörðum, Krónunni Fiskislóð, Nettó í Mjódd, Kaskó Vesturbergi, Hagkaupmum Holtagörðum, Nóatúni Austurveri, Samkaupum Úrval Miðvangi og Fjarðarkaupum Hólshrauni. 

Könnunin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert