Tveir þingmenn Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd Alþingis, Magnús Stefánsson og Bjarni Harðarson, fara fram á að tafarlaust verði haldinn sameiginlegur fundur þessara nefnda til þess að ræða þá stöðu sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar, ríkisfjármálum og horfum framundan.
Í greinargerð þingmannanna kemur fram að það sé kunnara en frá þurfi að segja að miklar viðsjár eru nú í efnahagsmálum þjóðarinnar. „Kemur þar margt til en mestu ræður þó hin alþjóðlega fjármálakreppa sem einkennir allan hinn vestræna heim. Við þessar aðstæður vekur aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar á Íslandi athygli. Seðlabanki Íslands hefur gripið til þeirra ráða sem hann hefur en einn og sér getur hann ekki stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar, enda er hans hlutverk einkum stjórn peningamála ásamt því að stuðla að stöðugleika í verðlagsmálum. Nauðsynlegt er því að gætt sé samhljóms og samræmis í aðgerðum Seðlabanka og ríkisstjórnar en mikið hefur skort á að svo sé hina síðustu mánuði.
Hlutverk Alþingis er að móta reglur sem meðal annars lúta að samskiptum framkvæmdavaldsins við Seðlabanka Íslands. Sömuleiðis er það skylda þings og þingnefnda að koma fram með tillögur og stefnumörkun í efnahagsmálum við aðstæður eins og þær sem hér hafa skapast.
Ljóst er af þeim lækkunum sem orðið hafa á hlutabréfum og gengi krónunnar að forsendur fjárlaga hafa algerlega brugðist. Fjárlaganefnd þarf að taka það mál til athugunar og leggja fyrir þingið fjáraukalög með endurmati.
Þá er mikilvægt að nefndirnar í sameiningu leggi mat á þær horfur sem framundan eru," að því segir í greinargerð þingmannanna.
Jafnframt fer Bjarni Harðarson fram á að fjárlaganefnd fundi þegar í stað vegna skýrslu sem út er komin um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og fái til fundar við sig fulltrúa Ríkisendurskoðenda.
„Fjölmörg atriði í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðanda um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar kalla á nánari skýringar skýrsluhöfunda. Þannig vekur athygli að margt í þeirri gagnrýni sem fram kom í umræðu um málið á liðnu hausti er hvergi getið. Má þar nefna sérstaklega samning ríkisins við Þróunarfélagið og hagsmunatengsl einstakra bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ og bæjarfélagsins. Fullyrðingar skýrsluhöfundar um veðleyfi stangast á við orðanna hljóðan í samningi Þróunarfélagsins og Háskólavalla og svo mætti áfram telja," að því er segir í greinargerð Bjarna.