Forstöðumenn ríkisstofnana eru jákvæðir gagnvart flutningi starfa frá höfuðborgarsvæðinu en hlutfall ríkisstarfa eftir landssvæðum hefur lítið breyst milli ára. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur nú í þriðja sinn gefið út samanburðarskýrslu um fjölda starfa á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafirði.
Úttektin sýnir að ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað um 3.000 á höfuðborgarsvæðinu en einungis um 100 á Eyjafirði, en fjölgunin þar ætti að vera um 300 ef hlutföllin væru jöfn.
Úttektin sýnir að 73% af yfirmönnum stofnana ríkisins voru jákvæðir gagnvart því að flytja hluta starfa á vegum hins opinbera af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Einungis 15% voru neikvæðir gagnvart slíkum flutningi.
Hátt hlutfall ríkisstarfa eru fyrst og fremst unnin við tölvu og í gegnum síma. Kannað var því hversu hátt hlutfall starfa á vegum ríkisins væru þess eðlis að hægt væri að vinna þau hvar sem er. Fram kom hjá yfirmönnum ríkisstofnana að þau reyndust 10 eða fleiri í 28% stofnana á vegum ríkisins og 3-9 störf í 25% stofnana. Í einungis 19% ríkisstofnana er ekkert starf sem fyrst og fremst er unnið við tölvu eða í gegnum síma. Í stærstu stofnunum ríkisins er þetta hlutfall enn hærra, eða um 60%.
Úttektin sýnir að 3/4 hluti eru jákvæðir gagnvart flutningi starfa frá höfuðborgarsvæðinu og þrátt fyrir að byggðaáætlanir síðustu áratuga hafi lagt áherslu á að störf á vegum ríkisins byggist ekki einungis upp á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu byggðaáætlanir hafa lagt áherslu á að efla Eyjafjarðarsvæðið en staðan hefur ekkert breyst. Eyjafjörður er hagkvæmur kostur og uppfyllir vel skilyrði yfir hátt menntunarstig íbúa, nútímalega afþreyingu, há lífsgæði og víðtækt framboð þjónustu. Einnig væri hægt að benda á hagkvæmnissjónarmið s.s. möguleika á að bjóða út tiltekna þjónustuþætti, minni starfsmannaveltu og lægri húsnæðiskostnað en á höfuðborgarsvæðinu.
Um 90% af ríkisstörfum tengd sjávarútvegi eru unnin á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 4,6% á Eyjafirði. Atvinnugreinin er nánast öll stunduð á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafjörðum og nágrannabyggðir eru mestu sjávarútvegssvæði landsins. Sömuleiðis er landbúnaður öflugur og mörg stærstu matvælafyrirtæki landsins eru á svæðinu. Það væri gott fyrir stofnanir og fyrirtæki að vera í sem mestri nálægð.