Gamlar vörur hækka í verði

ARND WIEGMANN

Neytendasamtökin hafa fengið margar ábendingar um verðhækkanir á síðustu dögum. Neytendur hafa haft samband og bent á að í mörgum tilfellum sé um að ræða vörur sem legið hafa í verslunum frá því fyrir páska og voru því keyptar fyrir gengislækkun krónunnar. Dæmi eru um að seljendur hafi kroppað gamla verðmiðann af fyrir framan viðskiptavinina og síðan selt vöruna á nýju og hærra verði.

Á vef Neytendasamtakanna kemur fram að sé óásættanlegt að seljendur hækki verð á vörum með slíkum hætti. „Neytendasamtökin hvetja seljendur til að stilla hækkunum í hóf og leita allra leiða til hagræðingar. Minnt er á að neytendur hafa sárasjaldan upplifað lækkun á vöruverði þegar gengi krónunnar styrkist. Má því ætla að íslenskir neytendur eigi eitthvað inni.

Samtökin hafa einnig fengið nokkur mál þar sem umsamið verð á vöru eða þjónustu hefur hækkað eftir að samningur var gerður. Þetta á t.d. við um innfluttar vörur sem kaupandi hefur pantað og jafnvel greitt að hluta. Hafi seljandi ekki gert fyrirvara í tilboði sínu er honum ekki heimilt að hækka verð. Því miður virðist slíkt þó algengt um þessar mundir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka