Krzysztof Marszalek og kona hans Marianna leigja þrjátíu fermetra herbergi í ósamþykktu íbúðarhúsnæði að Funahöfða 17 í Reykjavík á níutíu þúsund krónur á mánuði. Þess má geta að Krzysztof er með um 170.000 krónur í mánaðarlaun.
Hjónin, sem eru frá Póllandi og hafa verið búsett hér á landi um árabil, tóku herbergið á leigu í lok október, en þá var leigan sjötíu þúsund krónur. Þann 1. mars síðastliðinn hækkaði svo skyndilega leigan um tuttugu þúsund krónur, án útskýringa.
Í húsinu eru á fimmta tug herbergja í útleigu og að sögn pólsku hjónanna urðu þau vör við töluverða óánægju á meðal íbúa hússins vegna leiguhækkunarinnar, enda hafa einhverjir þeirra flutt annað í kjölfarið.
Til að tryggja sér sams konar herbergi og pólsku hjónin búa í, þarf viðkomandi að reiða fram 200 þúsund krónur að tryggingu meðtalinni.
Fyrirtækið sem leigir út herbergin heitir Húsaleiga ehf., en það er einnig skráð fyrir húsnæði að Funahöfða 19.