Kytra leigð á 90.000

Hjón deila 30 fermetra herbergi sem er í senn stofa, …
Hjón deila 30 fermetra herbergi sem er í senn stofa, eldhús og svefnherbergi. mbl.is/RAX

Krzysztof Marszalek og kona hans Marianna leigja þrjátíu fermetra herbergi í ósamþykktu íbúðarhúsnæði að Funahöfða 17 í Reykjavík á níutíu þúsund krónur á mánuði. Þess má geta að Krzysztof er með um 170.000 krónur í mánaðarlaun.

Hjónin, sem eru frá Póllandi og hafa verið búsett hér á landi um árabil, tóku herbergið á leigu í lok október, en þá var leigan sjötíu þúsund krónur. Þann 1. mars síðastliðinn hækkaði svo skyndilega leigan um tuttugu þúsund krónur, án útskýringa.

Ánægð en ósátt við hækkunina

„Við fengum engar útskýringar á því af hverju leigan hækkaði svona allt í einu. Við erum búin að koma okkur vel fyrir hérna og líður vel, en við erum ósátt við hækkunina enda finnst okkur of mikið að borga níutíu þúsund krónur fyrir eitt herbergi og klósett,“ segir Krzysztof.

Í húsinu eru á fimmta tug herbergja í útleigu og að sögn pólsku hjónanna urðu þau vör við töluverða óánægju á meðal íbúa hússins vegna leiguhækkunarinnar, enda hafa einhverjir þeirra flutt annað í kjölfarið.

Leigusamningur á huldu

Um hver mánaðamót fá hjónin greiðsluseðil sem þau svo greiða í banka. Krzysztof er ekki kunnugt um hvort hann hafi skrifað undir leigusamning við fyrirtækið sem leigir út herbergin. „Ég skrifaði held ég undir eitthvert plagg á sínum tíma, en ég veit ekkert hvað það var því það var á íslensku. Ég er ekki með neinn leigusamning undir höndum. Ég vildi skrá heimili okkar í þjóðskrá á dögunum til að fá póst og aðrar upplýsingar, en okkur var tjáð að það gætum við ekki því við byggjum á gistiheimili.“

Til að tryggja sér sams konar herbergi og pólsku hjónin búa í, þarf viðkomandi að reiða fram 200 þúsund krónur að tryggingu meðtalinni.

Fyrirtækið sem leigir út herbergin heitir Húsaleiga ehf., en það er einnig skráð fyrir húsnæði að Funahöfða 19.

Í hnotskurn
Leiguherbergi eru á annarri og þriðju hæð hússins, en á hvorri hæð er eitt sameiginlegt eldhús og tvö salerni með sturtum. Íbúar hússins hafa aðgang að tveimur þvottavélum.
Funahöfði 17.
Funahöfði 17.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert