Landsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu var undirrituð í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð í dag. Þeir sem unnu að gerð áætlunarinnar komu saman í Skógarhlíð til að fagna þessum áfanga.
Við gerð áætlunarinnar störfuðu um 30 vinnuhópar með verkefnastjórn og stýrihópi eða um 100 manns.
Þessir aðilar komu alls staðar að úr atvinnulífinu með það að markmiði að tryggja, að bráðnauðsynleg starfsemi gæti haldist í landinu yrði heimsfaraldur inflúensu að raunveruleika.
Þeir Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Haraldur Briem, sóttvarnalæknir undirrituðu Landsáætlunina.
Á vef lögreglunnar segir að forsaga áætlunarinnar sé sú að í október 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögur um viðbrögð og aðgerðir vegna heimsfaraldurs inflúensu. Ákveðið var að gera viðbragðsáætlun og fylgjast vel með þróun áhættumats og viðbúnaðar í öðrum löndum.
Í febrúar 2006 fól ríkisstjórnin síðan ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni að hefjast handa við gerð slíkrar viðbragðsáætlunar. Nú er landsáætlunin tilbúin, en hún var æfð þann 10. desember s.l. og tókst sú æfing með ágætum.
Hægt er að nálgast Landsáætlunina á heimasíðu almannavarnadeildarinnar undir liðnum heimsfaraldur inflúensu. Þar er einnig að finna bæði ávarp ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis við athöfnina í dag.