Óprúttnir miðlarar reyna að brjóta niður íslenska fjármálakerfið

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson. mbl.is/Ómar

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði á ársfundi Seðlabankans í dag, að sú atlaga, sem þessa dagana væri gerð að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu lykti óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.

„Þeim mun ekki takast það. En til álita hlýtur að koma að gera alþjóðlega opinbera rannsókn á slíku tilræði við heilbrigð fjármálakerfi," sagði Davíð og vísaði einnig til þess að síðustu mánuði hefði borið á vafasamri hegðun á alþjóðlegum mörkuðum. Nýleg dæmi væru rógsherferð gegn breska HBOS bankanum sem skaðaði hann mikið, þótt tímabundið væri, en það mál væri nú í rannsókn. Þá benti dæmi frá Írlandi í sömu átt.

Fram kom í ræðu Davíðs að skuldatryggingarálag íslenska ríkisins hækkaði í dag í yfir 400 punkta sem væri fráleitt. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á ársfundinum, að fáránleiki skuldatryggingaálagsins verði augljós þegar litið sé til íslenska ríkisins, sem sé nánast skuldlaust en sé engu að síður sett í sama flokk og stórskuldug ríki.

Davíð sagði, að fátt bendi til þess að efnahagslegt vor sé í vændum og rétt væri að ganga út frá því sem vísu, að ástandið á fjármálamörkuðum muni lítið lagast í bráð. Þótt það kunni að lagast fari því fjarri að allt verði eins og áður.

„Hafi menn ekki þegar tekið sér tak er ekki lengur neins að bíða. Leita þarf allra leiða til að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækjanna, ekki síst fjármálafyrirtækjanna og samhliða þarf að skoða markaðsmódelin rækilega upp á nýtt. Það má segja að á knattspyrnumáli myndi þetta þýða, að nú sé rétt að pakka í vörn og láta sér nægja marksvon með hraðaupphlaupi ef tækifæri bjóðast þrátt fyrir allt. Þótt ýkt bölsýni sé auðvitað til óþurftar er jafn vont eða verra að gylla stöðuna fyrir sjálfum sér og almenningi og gefa til kynna að einhvers konar töfraleið sé til út úr þessum vanda. „Að ljúga að öðrum er ljótur vani, að ljúga að sjálfum sér hvers manns bani”, sagði þar," sagði Davíð.

Ræða Davíðs Oddssonar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert