Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti munu aukast umtalsvert vegna gengislækkunar krónunnar. Ástæðan er sú að við lækkun gengis hækkar innkaupsverð og virðisaukaskatturinn er prósentutala sem tekur mið af innkaupsverði. Það kann þó að vera að verðhækkunin dragi að einhverju leyti úr sölu, en það hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs.
Ein af þeim vörum sem hækka þessa dagana er áfengi, en gengislækkun krónunnar hefur mikil áhrif á verð til neytenda.
Stéphane Aubergy, víninnflytjandi hjá Vínekrunni, segir að það hljóti að vera umhugsunarvert fyrir neytendur sem þurfi að taka á sig verðhækkun á áfengi að ríkið skuli hagnast mest. ÁTVR, sem sé með fasta álagningarprósentu, hagnist einnig. Hann segir að miklar verðhækkanir á áfengi séu framundan. Fyrir utan gengisbreytingar sé innkaupsverð að hækka og flutningskostnaður hafi líka hækkað mjög mikið.