Þingmenn VG ráða aðstoðarmenn

Ragnheiður Eiríksdóttir
Ragnheiður Eiríksdóttir

Ragnheiður Eiríksdóttir og Huginn Freyr Þorsteinsson hafa verið ráðin til aðstoðar þingmönnunum Atla Gíslasyni og Þuríði Backman. Huginn er aðstoðarmaður Þuríðar með aðsetur á Akureyri en Ragnheiður er aðstoðarkona Atla og verður með aðsetur í Reykjanesbæ.

Ragnheiður Eiríksdóttir er betur þekkt sem Heiða en undir því nafni hefur hún komið fram í ýmsum hljómsveitum, þar á meðal Unun. Hún býr nú á Reykjanesi með fjölskyldu sinni en hún lærði heimspeki við Háskóla Íslands og  tók eitt ár í Masternámi í Technische Universität í Berlín. Ragnheiður hefur unnið ýmis störf um ævina, sem blaðamaður, tónlistargagnrýnandi og fleira, en þekktust er hún að sjálfsögðu fyrir tónlist sína.

Maki Ragnheiðar er Elvar Geir Sævarsson, tónlistarmaður og saman eiga þau soninn Óliver.

Huginn Freyr Þorsteinsson er 29 ára og heimspekingur að mennt, útskrifaðist með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands 2003, MA-próf í vísindaheimspeki frá Bristol háskóla árið 2005 og stundar nú um stundir doktorsnám við sama skóla. Huginn hefur starfað fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð frá árinu 2001 með hléum en í síðustu kosningum var Huginn kosningastjóri á landsvísu. Hann er auk þess formaður Vinstri grænna á Akureyri.

Samhliða því að gegna aðstoðarmennsku fyrir Þuríði hefur Huginn verið ráðinn til starfa fyrir svæðisfélag Vinstri grænna á Akureyri og kjördæmisráð Norðausturkjördæmis.

Sambýliskona Hugins er Dagný Bolladóttir, málfræðingur og eiga þau synina Bolla Stein og Gunnar Bjart.

Huginn Freyr Þorsteinsson
Huginn Freyr Þorsteinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert