Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú yfirheyrt þrjá menn sem voru handteknir fyrir meint mannrán í Breiðholti skömmu eftir miðnætti. Að sögn lögreglu var ekki um mannrán að ræða, heldur kom í ljós við yfirheyrslur að mennirnir þekktust allir en upp kom ágreiningur á milli mannanna varðandi skuld. Maðurinn, sem var sagður hafa verið fluttur nauðugur inn í bíl, mun hafa farið inn í bílinn sjálfviljugur, að sögn lögreglu.
Lögregla fékk upplýsingar frá sjónarvotti um að maður hefði verið beittur ofbeldi og settur nauðugur inn í bíl í Hólahverfi. Lögregla stöðvaði bílinn skömmu síðar á Reykjanesbrautinni, og handtók mennina þrjá. Að sögn lögreglu er málinu lokið.