Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir það alrangt, sem hann hafi lesið á bloggum, að samstarf þeirra Jóhanns Benediktssonar, sýslumanns í Keflavík, hafi verið allt annað en gott og að Björn hafi verið með samblástur gegn honum.
Jóhann sagðist í gær ætla að ræða um starfslok sín við dómsmálaráðherra vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Sagði Jóhann, að hann muni ekki taka þátt í að leysa í sundur það viðkvæma gangverk sem hafi tekið langan tíma að setja saman og skilað metárangri.
Björn segir á heimasíðu sinni, að ráðuneytið hafi mótað framtíðarstefnu fyrir embættið, eftir að hafa fengið tillögur frá því, sem sýndi það í fjárhagslegum ógöngum miðað við fjárlög 2008.