Fjórar katólskar systur, sr. Elíse, sr. Mirjam, sr. Petra og sr. Renée, hafa yfirgefið landið eftir áratuga starf við sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Af því tilefni var haldið kveðjuhóf í St. Franciskusspítalanum. Í hófið mætti fjölmenni sem vildi sýna þeim þakklæti fyrir sitt fórnfúsa starf fyrir sjúkrahúsið og ekki síður fyrir samfélagið.
Allar eru þær systur orðnar fullorðnar og hafa helgað stærsta hluta starfsævi sinnar þjónustu í Stykkishólmi. Ein þeirra, Sr. Renée er frá Belgíu og kom til Stykkishólms haustið 1952. Hún hefur verið hér í yfir 50 ár. Hún starfaði á sjúkrahúsinu við hjúkrun. Hún var í tvígang priorinna og byggingastjóri sjúkrahússins. Hún hafði mikil samskipti við iðnaðarmenn og tæknimenn bæði í Stykkishólmi og í Reykjavík og ávann sér mikla virðingu allra sem samskipti þurftu að eiga við hana.
Í samtali við fréttaritara sögðu þær að þeim hefði liðið vel að starfa á Íslandi. Það voru mikil viðbrigði að koma til Íslands á þeim tíma. En þær náðu fljótt að aðlagast og það gekk mun betur vegna þess hve bæjarbúar voru þeim hjálplegir og eins auðveldaði allt þeirra barnastarf þeim að læra og tala íslenskuna.
Þær gengust undir það heit að hlýða er þær tóku þá ákvörðun að ganga í St. Franciskusregluna. Því loforði munu þær fylgja um ókomin ár. Þegar þær fengu þær fregnir að þær ættu að flytja sig til fyrri heimkynna var ekkert um annað að ræða en að hlýða. „Það var gaman að koma til Stykkishólms, en alls ekki að fara,“ sögðu þær systur einum rómi. Þær vildu gjarnan dvelja hér lengur, en það er annarra að taka ákvörðun.