„Safnaði frá barnsaldri og henti aldrei neinu“

Gísli Sigurgeirsson hefur gert heimildamynd um Sverri Hermannsson, sem smámunasafnið …
Gísli Sigurgeirsson hefur gert heimildamynd um Sverri Hermannsson, sem smámunasafnið í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit er kennt við. Þarna er Gísli að klippa myndina, Sverrir sést á skjánum. mbl.is

„Ég kynntist Sverri fyrst barn í Innbænum á Akureyri en hann og faðir minn voru ágætir vinir, fengu sér stundum í tána og sungu þá svo undir tók í Innbænum og nærsveitum,“ segir Gísli Sigurgeirsson kvikmyndagerðarmaður um kynni sín af Sverri Hermannssyni, smíðameistara og safnara. Gísli hefur gert heimildamynd um Sverri, Gamalt er gott, sem frumsýnd verður á morgun, þegar Sverrir verður áttræður.

„Sverrir vann í hálfa öld við smíðar en þegar þrekið tók að minnka ákvað hann að snúa sér að öðru,“ segir Gísli. „Hann hafði frá barnsaldri safnað ýmsum munum, henti aldri neinu, hann átti til dæmis smíðatólin sem móðir hans hafði fært honum á sjö ára afmælinu og hann átti alla blýantsstubbana, sem fallið höfðu til við smíðavinnu hans frá 1946. Sverrir bjó í Aðalstræti 38 og þar er bakhús, sem eitt sinn var hesthús, fjós og hlaða. Ég kom þarna stundum strákur, en þegar ég heimsótti Sverri skömmu fyrir síðustu aldamót datt af mér andlitið. Hann var búinn að fylla útihúsin af alls konar smámunum, sem flestir hverjir voru frá því um miðja síðustu öld. Þar að auki hafði hann komið þessu öllu svo skemmtilega fyrir að það var heilt ævintýri að skoða safnið. Þarna fann ég túttuskó, sem gerðir voru úr gúmmíslöngum, en slíkur skófatnaður var algengur um miðja síðustu öld. Þarna voru líka olíuluktir á reiðhjól, gamlar reiknivélar, ritvélar, hurðahandföng í tugatali, koppar, hraðsuðukatlar, kranar, raflagnaefni, símar, hálft annað tonn af svörtum saumi og mínusskrúfur í þúsundavís.“

Sverrir lauk smíðanámi upp úr 1950, en á áttunda áratugnum hóf hann endurbætur á gömlum húsum, sérhæfði sig í þeirri grein og starfaði eingöngu við gömul hús í ein þrjátíu ár. „Eitt fyrsta húsið sem hann gerði við var Laxdalshús, sem var að hruni komið þegar Sverrir og hans völundar, hófu þar endurbætur. Þegar þeir höfðu klætt húsið í sparifötin var það eins og stofustáss í Innbænum.

Sagan endurtók sig við fleiri hús; Höepfner, Tuliniusarhúsið, Grundarkirkju, Hólakirkju, Möðruvallakirkju og skemmuna á Skipalóni, svo nokkur dæmi séu nefnd,“ segir Gísli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert