Sextán manns með MS-sjúkdóminn eru nú farnir að fá lyfið Tysabri gefið reglulega, en vonir hafa verið bundnar við að það taki öðrum MS-lyfjum fram. Fyrsta lyfjagjöfin fór fram í janúar og hefur smám saman bæst í hópinn síðan.
Ólafur Örn Karlsson varð fyrstur til að fá lyfið nú í janúar. Hann er 21 árs Hafnfirðingur og greindist með MS fyrir um tveimur árum. ,,Ég finn ótrúlegan mun,“ segir Ólafur. „Ég fékk meiri kraft í hendurnar og get nú vakað mun lengur. Fyrir mér er þetta lyf algjört kraftaverk. Hin lyfin hindruðu framgang sjúkdómsins en bættu ástandið ekkert. Sjúkdómurinn er eitthvað að ganga til baka hjá mér núna, en ég get engum öðrum lofað því sama. Þetta er mjög einstaklingsbundið. Ég er kominn með mikið af því þreki sem ég hafði áður og er farinn að sjá fulla sjón aftur,“ segir Ólafur, sem hefur fengist við bílaviðgerðir í vikunni.
Kristín Þorbjörg Ólafsdóttir, bóndi úr Flóanum, var einnig meðal þeirra fyrstu sem fengu lyfið. Hún segist ekki vera farin að finna mikinn mun á sér, en „þetta á fyrst og fremst að stöðva framgang veikinnar. Það að ég get tekið lyfið er auðvitað fyrsti sigurinn, en svo verður tíminn einfaldlega að leiða í ljós hvaða áhrif það hefur. Ég er mjög glöð yfir því að hafa fengið lyfið og ánægð með þjónustuna á Landspítalanum,“ segir hún.
Haukur Hjaltason, taugasérfræðingur á Landspítalanum, leggur áherslu á að einungis sé nýbyrjað að gefa lyfið. Tíma geti tekið að sjá áhrif þess til fulls. „En það er einn og einn sjúklingur sem líður almennt betur,“ segir Haukur um árangurinn til þessa. Um gildi lyfsins segist hann einungis geta fullyrt út frá fyrirliggjandi erlendum rannsóknum á Tysabri, sem sýni fyrirbyggjandi áhrif þess með marktækum hætti, auk þess sem ákveðnir sjúklingar á Tysabri hafi fundið fyrir aukningu í gæðum síns daglega lífs.