Stafnás: Sviknir um laun í tvo mánuði

Um hundrað verkamenn bygginga- og verkfræðifyrirtækisins Stafnáss hafa ekki fengið greidd laun frá því í janúar. Langflestir þeirra eru Pólverjar, en þeirra á meðal eru einnig Litháar og örfáir Íslendingar.

„Þegar við fengum ekki borgað og fórum að spyrjast fyrir lugu forsvarsmenn fyrirtækisins að okkur nánast daglega um að launin væru alveg að koma, en það stóðst ekkert af því sem þeir sögðu. Að lokum hættu þeir svo bara að koma og tala við okkur.“ Þetta segir Przemyslaw Olaf Surma, 27 ára Pólverji. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu í júní síðastliðnum en kom til landsins eftir að hafa ráðið sig hjá Stafnási.

„Ég er heppinn því ég á sparifé til að lifa á, en ég þekki menn sem hvorki eiga fyrir mat né flugmiða til að komast heim til sín og fá enga vinnu,“ segir Przemyslaw Olaf Surma.

Starfsmenn Stafnáss funduðu ásamt stéttarfélaginu Eflingu í lok febrúar, en félagið fer með mál mannanna. Þá höfðu mönnunum borist tveir launaseðlar í febrúar sem ekki höfðu verið greiddir, en eftir fundinn sendi stéttarfélagið fyrirtækinu greiðsluáskorun.

Mál um þrjátíu starfsmanna hafa ratað inn á borð Eflingar, en fyrstu mennirnir leituðu til stéttarfélagsins í byrjun mars. Í kjölfarið sendi stéttarfélagið fyrirtækinu bréf þar sem fyrirtækinu var gefinn vikufrestur til að ganga frá launagreiðslunum, en samkvæmt heimildum 24 stunda hafa enn engin svör borist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert