Könnun á vegum Geislavarna ríkisins og Umhverfisstofnunar hefur leitt í ljós að ljósabekkjum á landinu hefur fækkað töluvert frá árinu 2005.
Könnunin var unnin með aðstoð Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og reyndust alls 196 ljósabekkir á landinu öllu en í sambærilegri könnun árið 2005 voru 277 bekkir taldir. Nemur fækkunin um 30%.
Í tilkynningu frá Geislavörnum kemur fram að um 0,6 ljósabekkir eru á hverja þúsund íbúa en voru um 0,9 í síðustu mælingu.
Árið 2005 sendu Geislavarnir ríkisins og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem mælt var gegn notkun ljósabekkja, sérstaklega meðal ungs fólks. Hefur samstarfshópur um varnir gegn útfjólublárri geislun, sem stofnaður var í ársbyrjun 2004, árlega staðið fyrir átaki undir slagorðinu Hættan er ljós til að stemma stigu við óhóflegri ljósabekkjanotkun.