Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á áttræðisaldri í 2 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum sem voru á aldrinum 10 til 12 ára þegar brotin voru framin. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða annarri stúlkunni 700 þúsund og hinni 500 þúsund í miskabætur auk 1,3 milljóna króna í málskostnað.
Maðurinn neitaði sök en fjölskipaður héraðsdómur sakfelldi hann og lagði til grundvallar framburð stúlknanna. Önnur stúlkan, sem maðurinn braut gegn, var stjúpdótturdóttir hans en brotið gegn henni var framið í eitt sinn á árunum 1999-2003. Var maðurinn fundinn sekur um að hafa káfað á brjóstum stúlkunnar innanklæða.
Brotið gegn hinni stúlkunni var framið árið 1994 en dómurinn taldi sannað að maðurinn hefði káfað á stúlkunni, sem þá var 11 ára gömul.
Í dómnum eru raktar skýrslur sálfræðingar um þær afleiðingar, sem brotin höfðu á stúlkurnar. Fram kemur að brotið hafi valdið annarri stúlkunni töluverðum skaða og hafi haft veruleg áhrif á persónuleika hennar, félagsmótun og lífssýn.
Hin stúlkan er sögð afar döpur og með mikinn kvíða. Hún hafi verið áberandi átakamikil sem ung stúlka en rekihörmungasögu sína til þessa atviks með ákærða.